Reiðtúrar

20170726_140648

2017

Aska er keypt frá Ólafshaga sumarið 2017. Alhliða hryssa, viðkvæm en mjög þæg, góður reiðvilji. Aska er hestagullið okkar.

Ætt: Aska frá Ólafshaga – IS2008201189

F. Glymur frá Innri-Skeljabrekku
M. Brynja frá Skammbeinsstöðum 1

—————————————————————————————————–
Snapshot 3 (30.6.2017 21-51)flugskeið_unnin

2017

Rimma fæddist 2011 og er undan Tývari frá Kjartansstöðum og Veru. Rimma er í miklu uppáhaldi, hún er dugleg, næm en var aðeins viðkvæm í tamningu. Hún hefur alhliða ganghæfileika og eru í raun allar gangtegundir góðar en stökkið síst.  Hún var frumtamin haustið 2015 og tamin vetur/vor 2016 og í þjálfun haust 2016 og vetur/vor 2017. Fylfull 2017/2018. Kastaði brúnu hestfolaldi í maí 2018. Útigang 2019. Í þjálfun 2020.

Ætt: Rimma frá Hólateigi – IS2011201225

F. Tývar frá Kjartansstöðum
M. Vera frá Hólavatni

—————————————————————————————————–

33825250_10216713633332468_8277531375402221568_o

Vor 2018

Kynning er keypt haustið 2017 þá 3.vikna for-frumtamin. járnuð og frumtamin í mars 2018 fram á sumar. Send í gangsetningu júní-júlí 2018. Útigang 2019. Í þjálfun 2020. Klárgeng, hágeng og nokkuð traust. Viljinn seinn til.

Ætt: Kynning frá Reykjavík – IS2013225550

F. Óskar frá Blesastöðum 1a
M. Stilling frá Bjarnastaðahlíð

—————————————————————————————————–

66447987_2349672755118650_1219900218212876288_n

2019

Bragi er brúðkaupsgjöf frá Helgu söðlasmið – glimrandi fallegur foli. Kom á hús áramótin 2019-2020 og sýndi gott geð og var námsfús.

Ætt: Bragi frá Miðlandi – IS2017164246

F. Akur frá Kagaðarhóli
M. Brók frá Bólstað

—————————————————————————————————–

62017004_10219641298722273_3120230256632397824_o

2019

Starri er undan Rimmu okkar og hinum skjótta Þristi frá Feti. Starri ákvað að fá sér hvorki skjótta litinn frá pabba sínum né stjörnurnar frá mömmu sinni og vera bara hann sjálfur. Við fyrirgefum honum þar sem hann er voðalega sætur!

Ætt: Starri frá Valbergi – IS2018101790

F. Þristur frá Feti
M. Rimma frá Hólateigi

— Horfnir góðhestar —

10458165_10203941879087095_2367266675065800045_n (1)

Vera átti brösuga byrjun í lífinu sínu. Hún kastaði slysafyli aðeins 3 vetra gömul og náði að fótbrjóta það nánast um leið. Folaldið var því fellt og upp frá því var Vera næstum mannýg þegar hún var með ný folöld. Hún kom til tamningar 4 eða 5 vetra, alveg snælduvitlaus og skíthrædd við mannfólkið. Fékk ekki góða tamningu og lenti í tamningamönnum sem annaðhvort lömdu hana eða voru hræddir við hana. Hún var orðin stórskemmd þegar hún fór til kunningja í Borgarnesi sem náðu til hennar og löguðu það sem hægt var að laga og upp frá því hleypti hún kvenfólki á bak en grýtti karlmönnum! Ég vann mikið með hana í hendi og við urðum fínar vinkonur og hún treysti mér. Eftir að ég loksins eignaðist hana gat ég riðið henni út en mátti helst ekki snerta taumana því þá slengdi hún tungunni yfir og varð stjórnlaus. Ef hún varð stjórnlaus gat ég samt alltaf stoppað hana með því að tala rólega við hana og alls ekki segja neitt með stafnum „s“ því þá hljóp hún bara!

Ég ákvað að ef hún myndi læra að tölta þennan vetur myndi ég nota hana sem reiðhest, ef ekki myndi hún bara fara í að búa til reiðhesta handa mér. Ég fór með hana í dóm 2003 og hún fékk fínasta byggingadóm en fór, augljóslega, ekki í hæfileikadóm. Ég þekkti hana svo ég vildi gefa henni séns og fór með hana undir geðprúðan og fallegan stóðhest – Prins frá Úlfljótsvatni. Undan þeim kom langfallegasta afkvæmið hennar – rauðskjótt, vinkilhágeng, knarrreyst og GULLfalleg … Röskva frá Hólavatni. Hún fór í dóm og er nú í folaldseignum hjá nýjum eigendum. Ég náttúrlega sannfærðist við þetta að Vera væri stórbrotinn kynbótameri og hún var í folaldseignum frá 2003-2015 og eignaðist næstum alltaf falleg, snyrtileg afkvæmi með góð gangskil. Ekkert vinkilhágeng (sum samt), en góð reiðhross engu að síður.

Vera gaf mér þrjú hross sem ég á enn. Tý, Rimmu og Hervöru. Þau þrjú eru eins og jing og jang og jeng. Týr er klárhestur með ofsalegt skap og viðkvæmur. Rimma er alhliða með góð gangskil, viðkvæm en ljúf. Hervör er auðtamin, falleg, stór og sterkbyggð. Vera var því frekar óútreiknanleg ræktunarhryssa. Takk fyrir allt Vera mín. Vera fallega ❤

Vera var felld 11. september 2016.

Ætt: Vera frá Hólavatni – IS1993284465

F. Magni frá Búlandi
FF. Sörli frá Búlandi
FM. Snælda frá Búlandi
M. Fluga frá Austvaðsholti 1
FM. Bógatýr frá Önundarhorni
MM. Perla frá Austvaðsholti 1
—————————————————————————————————–
23916342_10215135568681838_3860793775172689590_o

2017

Hervör er fædd 2013 og er undan Tvisti frá Hvolsvelli og Veru. Gullfalleg meri, stór og sterk. Hún fór í folaldatamningu veturinn 2014 í rúman mánuð og var teymd sumarið 2015. Frumtamin vetur/vor 2017 – mikið skap (hrekkti) og ósjálfstæð, tók upp á að ropa. Tamin 2018 – Einbeitt, frek, þungt skap.  Mikið tölt, mjög gott skeið, ágætt brokk, lélegt stökk. Felld vegna hrekkja og fleirri skapgalla.

Hervör var 20. júní 2018
—————————————————————————————————–
ferd24

Týr og eigandinn 2011

Týr (Týson) fæddist 2006 og var undan Suðra frá Holtsmúla og Veru okkar. Hann var elstur af Verubörnunum okkar en taminn seint vegna þess hve horaður og vöðvarýr hann var 4. vetra. 5. vetra keyrði hestaflensan hér allt um koll og hann var veikur og slappur. Hann var því taminn á 6.vetur. Skapið var afar sveiflukennt en hann var afskaplega sérhlífinn í reið og yfirleitt ekki til í að gera of erfiða hluti. Í umgengni var hann toppnæs, kelinn og ofurspakur. Hann átti erfitt með tölt og við höfðum sætt okkur við hann sem klárgengan lullara; það er víst til; stökkið var hans besta gangtegund. Veturinn 2016 fékk hann viðurnefnið Tyson/Týson þar sem hann reyndi ítrekað að boxa hundana okkar í reiðtúrum, pínu fyndið en samt ekki … Það var fátt eðlilegt við þennan hest og einu plúsarnir eru að þetta var glæsileg skepna, kolsvartur með flottan höfuðburð. Við gáfumst þó endanlega upp á honum þegar hann tók uppá að ródeo stinga sér vorið 2017, þá 11. vetra.

Týr var felldur 31. maí 2017

—————————————————————————————————–

Freyfaxa eignaðist Sigga í hestakaupum árið 1998. Hann var þá sagður 9 vetra gamall en ættartala fylgdi honum ekki, í raun engar upplýsingar nema að hann væri Húnvetningur og hafði hann annað eyra sýlt (það er eyrnamark). Hann var fallega byggður þótt hann væri smár, andlitið var sérstakt og „fornt“ en hann hafði bæði kónganef og merarskál! Hann var í uppáhalds lit frúarinnar, rauðjarpur með svart tagl og fax þegar hún fékk hann en með aldrinum varð hann svolítið grásprengdur og með ljósar strýpur eftir sólina. Freyfaxi var dugmikill, liðugur og með lungnamjúkt tölt. Á seinni árum var brokkið líka orðið mjúkt en það var mjög ferðmikið þegar sá gállinn var á honum. Þegar Freyfaxi var ungur var hann oft með „vesen“ eins og frúin vill meina, hann slapp úr girðingum og var með læti. Hann var hinsvegar mjög sjálfstæður og þó hann væri smávaxinn veigraði hann sér ekki að ráðast til atlögu gegn stóðhestum með greddulæti … að minnsta kosti ef hann var að vernda hryssurnar „sínar“. Hann tók alltaf hryssur úr hesthúsinu sínu undir sinn verndavæng og refsaði þeim hrossum sem ötuðust í þeim. Frúin notaði Freyfaxa sem tilraunadýr fyrir allt sem henni datt í hug, hann lærði m.a. fimi og að prjóna eftir skipunum. Hann nýtti sér síðan þá kunnáttu þegar hann tók kergjuköst og prjónaði eins og enginn væri morgundagurinn.

Þrátt fyrir ýmsa vankanta á geðprýði var Freyfaxi uppáhalds reiðhestur frúarinnar, alltaf viljugur (afturábak eða áfram), alltaf traustur þrátt fyrir kergjuna, aldrei rauk hann, aldrei hrekkti hann og ef frúin rataði ekki heim þá rataði hann. Hann vissi hvort reiðleiðir væru öruggar og þá var best að hlusta á gamla frekar en að pína hann áfram – frúin sannreyndi það margoft. Maður á að minnast slíkra hesta og aldrei gleyma þeim.

„Freyfaxi minn var felldur síðasta sunnudag. Hann hefur fylgt mér í 15 ár, og var minn annar hestur. Ég er ánægð með að hafa getað haldið honum gegnum allskonar fjárhagsbreytingar og almennar samfélagslegar sveiflur. Alltaf var hann til taks, og alltaf jafn önugur í skapi. Hann var reistur og viljugur, taumléttur og (að mínu mati) skemmtilegur … held það hafi svona almennt bara verið mitt mat. Karakterinn hans var mikill og skapið líka. Gáfaður hestur sem alltaf var hægt að treysta á, næmur á umhverfi sitt og ákveðinn. Ef ég rataði ekki yfir mýrar fann hann réttu leiðina. Freyfaxi var ættlaus húnvetningur með annað eyrað sýlt. Með krummanef, smávaxinn og krúttlegur og í fallegasta litnum, rauðjarpur. Ég á eftir að sakna hans mikið en hann liggur nú uppi í sumarbústað með vini sínum Mjölni. “

Freyfaxi var felldur 28. október 2012.

Fleiri myndir af Freyfaxa

—————————————————————————————————–

mjölnir

Mjölnir var bleikur klár sem frúin sat uppi með eftir að tveir fyrri eigendur gáfust upp á honum. Hann var nú oftastnær meðfærilegur og góður var hann undir óvana en óþarflega dónalegur í umgengni – það rjátlaði aldrei af honum. Hann hafði verið notaður í hestaleigur á árum áður og kunni því að rykkja taumum af óviðbúnum knöpum en eftir að frúin fór að nota méllaust beisli á hann batnaði skapið og taumrykkingarnar hættu. Hann var kargur ef átti að fara á honum einum en með méllausa beislinu var hann sáttari að fara einn frá húsi. Hann var frostmerktur en enginn kunni að lesa í það svo við giskuðum að hann væri bara svipaður Freyfaxa í aldri. Mjölnir var mjög klaufskur hestur svo hann var alsettur örum, ganglagið var lélegt en hann lullaði og brokkaði (stundum) og valhoppaði inn á milli. Töltið var vel falið og það tók því varla að reyna að ná því fram.

Mjölnir var að öðru leiti sérlega karakterlaus hestur og kenndum við fyrri störfum hans í hestaleigum þar um. Hann fékk að vera í okkar umsjá á meðan Freyfaxi lifði, einungis til að halda honum félagsskap og því að börnin gátu fengið að sitja hann og hægt var að teyma þau á honum. Þegar við ákváðum að fella Freyfaxa fékk Mjölnir að fylgja honum svo þeir liggja nú saman uppi í bústað.

Mjölnir var felldur 28. október 2012.

—————————————————————————————————–
hrefnaDrottning2005

Drottning 2005

Hún hét fyrst Drottning, síðan Hrefna, síðan aftur Drottning og að lokum hét hún Hrefna. Til að gera mjög langa sögu stutta! Sigga kallar hana bara Hrefnu Drottningu enda var hún alger drottning. Hún var forystuhryssa, bráðgáfuð, falleg og faxprúð. Hún var alhliða og dugleg en með slæma hófa.

Hrefna Drottning var felld árið 2006.

Ætt: Drottning fá Vík – IS1987258048

F. Glóblesi frá Grænumýri
FF. Hjalti frá Hjaltastöðum
FM. Blesa frá Grænumýri
M. Fjóla frá Ysta-Mói
FM. Brúnblesi
MM. Skjóna frá Ysta-Mói
—————————————————————————————————–
sol_2004

Sól 2001

Sól telst varla til reiðtúra þar sem hún var bara í okkar eign sem tryppi og nýtamningur, og seld hana áður en við fórum nokkurntíman í reiðtúr. Hún var ekki tamin fyrr en á 6 vetur og var svo seld beint í ræktun árið 2010.

Felld 2013.

Ætt: Sól frá Hólavatni – IS2000284461

F. Háfeti frá Hvolsvelli
FF. Bylur frá Kolkuósi
FM. Benedikta frá Hvolsvelli
M. Sál frá Hólavatni
MF. Hrannar frá Sperðli
MM. Dáð frá Kirkjubæ

—————————————————————————————————–

skímaEg1997

Sumarið 1997

Sigga eignaðist Skímu árið 1997 og hún var hennar fyrsta hross, 5 vetra. Mikil trunta og letidrós, baslaði, körg, lúsug, ekki til hreinn gangur í henni nema kannski lull, hún kýrstökk, fékk hófsperru og eftir að hún fór í hestakaupum spattaðist hún. En Skíma litla var nú samt hennar fyrsta hross og góðu hliðarnar voru jú að Sigga gat bögglast um á henni án þess að slasast og hún var ÝKT töff á litin. Í staðin fyri Skímu fékk Sigga Freyfaxa, það var árið 1998.

Fór til Svíþjóðar, vitum ekkert um afdrif hennar þar.